19 June 2013

Brúðkaupið okkar - 28.07.12




































Ég er lengi búin að ætla setjast niður og skrifa almennilegt blogg um brúðkaupið okkar. Er búin að velta því vel fyrir mér hvernig ég vil setja það upp svo það gagnist öðrum. Ég ætla því að reyna fara í gegnum undirbúninginn og hvernig okkar dagur var þar sem ég tel hann hafa heppnast með eindæmum vel.

Þetta byrjaði allt saman þegar Hörður bað mín í byrjun nóvember 2011. Við vissum bæði hvað við vildum. Við vorum samt lengi að ákveða hvort það ætti að vera 2012 eða 2013. Við vorum viss með eitt og það var að við vildum giftast hvort öðru, 2012 varð fyrir valinu. 21.07.12 átti dagurinn að vera, við vorum búin að setja upp smá plan. Presturinn okkar hún Brynja Vigdís bjó í Noregi á þessum tíma og var ekki viss um að hún væri komin heim. Svo við ákváðum að breyta yfir í 28.07.12. Þegar dagurinn nálgast, er rigning, stormur og óðgeðslegt veður 21.07 en þegar dagurinn okkar rann upp, var sól, hiti og heiðskýrt ALLAN daginn! Heppnin var með okkur og presturinn vissi alveg hvað hún var að gera.

Þegar ég byrjaði að plana var ein regla sem við Hörður settum okkur saman og það var : EKKERT STRESS. Þessi tími á að vera skemmtilegur og undirbúningurinn á ekki að einkennast af stressi og vitleysu. Þetta stóðst hjá okkur og voru vinkonur mínar sumar farnar að hafa áhyggjur að ég væri of róleg! Þegar upp er staðið skiptir nákvæmlega engu máli hvort þú hafir fengið rétta dúka, eða kertin brenna rétt eða þú ert ekki með réttar spennur í hárinu. Það sem skiptir öllu máli er að þið eruð ánægð, að gestirnir skemmta sér vel og maturinn sé góður! Annað er ekkert nema plús.

Það komu nokkrar hugmyndir hvar átti að halda veisluna, mér var sama hvort það yrði í Keflavík eða Reykjavík en Hörður var ákveðinn í að það yrði í keflavík (hann er úr bænum). Keflavík var því fyrir valinu og Keflavikurkirkja. Þegar við vorum að velja sal, þá þurfti að rúma allann þann fjölda sem við vorum að bjóða eða um 160 manns. Við völdum kirkjulund sem er í sama húsi og kirkjan sem við giftum okkur í. Það var einn galli sem við vorum að hafa áhyggjur af að það mátti bara vera með veisluna til rúmlega 12. Þegar klukkan var hálf 1 var veislan búin. Sem ég er ótrúlega sátt með því eftir það er bara fyllerí! Það er ekki eithvað sem ég vil muna eftir á brúðkaupsdaginn. Svo þegar veislan var búin fóru allir sem vildu halda partýinu áfram heim til mömmu og pabba og var sópað þar út að ég held 6 um morguninn eftir. Sögurnar segja að um sé að ræða eitt skemmtilegasta og villtasta partý í nokkur ár! Það var dansað uppá á borðum og gleðin var við öll völd.

Það fyrsta sem ég tel að þurfi að hafa í huga er góður ljósmyndari. Við Hörður fengum Eygló Gísla til að taka okkar myndir og erum ótrúlega sátt. Það er nefnilega það eina sem þú átt eftir daginn og skiptir svakalega miklu máli að þú eigir flottar og vandaðar myndir. Gestabókin okkar var svo sett saman af litlum myndum. Við fengum vél sem prentar myndirnar strax, settum upp blöðruboga og létum taka myndir af öllum gestunum. Hver fékk svo sína mynd, setti í bók sem var tilbúin og skrifaði fallegan texta til okkar og nafnið sitt. Þetta er ótrúlega gaman að eiga og skoða. Ég skoða alltaf þessa bók þegar ég fer heim til íslands og mjög gaman að sýna gestum sem koma í heimsókn. Við tókum okkar myndir hjá Bláa lóninu, í Sólbrekkurskóg og á körfuboltavellinum hjá Njarðvíkurskóla. Bróðir hans pabba sá svo um að keyra okkur á milli staða á þessum ótrúlega flotta bíl sem er á myndunum hér að ofan.

Pabbi minn er einn sá besti sem ég veit um. Hann ákvað þegar við vorum að plana matinn að taka hann að sér. Hann fékk lánað 30 læra grill, hann keypti lærin sjálfur ásamt tengdamömmu, úrbeinaði þau með aðstoð og fékk svo menn til að grilla þau fyrir sig. Ásamt þessu vorum við með kalkúnabringur. Fjölskyldur okkar hjálpuðu okkur svo við að gera meðlætið. Það er ómetnalegt að eiga svona flottar fjölskyldur þegar þarf að setja svona flottan mat saman.

Við buðum uppá áfengi í veislunni. Það var rautt og hvítt með matnum. Það var skálað í Ganzia frá Astor og svo var boðið uppá bjór. Við buðum einnig uppá krap sem var búið að setja áfengi útí. Það rann sko vel ofaní mannskapinn þar sem veðrið var svo ótrúlega gott. Ég mæli með að hafa eitthvað svipað eða kokteila í könnum. Það gerir svo skemmtilega sumar stemmingu.

Ég var með ákveðnar hugmyndir hvernig ég vildi hafa blóm og skreytingar. Ég vildi hafa allt mjög plain en elegant. Mikið af kertum og frekar rómantíska stemmingu. Ég vildi ekki hafa einn lit sem gengi í gegnum allt eins og í fermingu, heldur meira flæði af fallegun litum. Ég valdi mikið silfur með hvítu , gráu og fölbleiku. Ég fann svakalega mikið af myndum á netinu til að sýna þeim sem hjálpuðu mér við skreytingarnar svo við værum allar nokkurn veginn með það hvernig við vildum gera þetta. Ég fékk þvílíkt góða hjálp á þessu sviði frá Möggu mágkonu hans pabba, Helgu systir, Ingibjörgu Ósk, mömmu og Hjördísi systir. Magga sá um að gera vöndinn minn fallega, hún er sko sannkallaður blómameistari. Þá á ég endalaust góðar vinkonur sem tóku að sér að fara í salinn um morguninn fyrir  athöfnina og blása í blöðrurnar og sjá til þess að allt væri á réttum stað. Takk stelpur.

Við vissum að við vildum hafa STUÐ í veislunni og því var tónlistin eftir matinn mjög mikilvæg fyrir okkur. Við fengum hana Valgerði Ínu til þess að syngja í kirkjunni vel valin lög. Þegar maturinn var svo búin og ræðurnar mætti Jón Sigurðsson sem var í Idolinu og hrissti aðeins uppí fólkinu..við vorum með svo fjöruga gesti að fólkið var komið strax uppá stóla að syngja og dansa með. Þegar dagskráin var svo búin og búið að borða þá komu þeir Atli og Davíð sem eru þekktir fyrir að vera með dúndur stemmningu og stuð og sáu sko til þess að það var dansað fram á rauða nótt. Ég myndi segja að það þarf alls ekki að fá þá sem eru hvað vinsælastir í dag til að koma og spila. Þá sem þið þekkið til og treystið til að búa til stemminguna sem þið sjáið fyrir ykkur er algjörlega málið.

Það sem ég er ótrúlega sátt með í dag þegar ég hugsa tilbaka er að hafa gert þetta allt persónulegt. Við gerðum þetta nákvæmlega eins og við vildum hafa þetta og vorum ekki að spara smá hér og þar og sjá svo á eftir því eftir nokkur ár.  Ekki spá bara í að kaupa alla þjónustu út heldur er svo gaman að geta þegið aðstoð frá þínum nánustu. Hjá okkur þurftum við í flestum tilfellum ekki að spurja heldur var okkar frábæra fólk, fjölskylda og vinir mætt og tilbúið í að hjálpa okkur. Fyrir það erum við ævinlega þakklát.

Helga systir er einstök og ég á aldrei eftir að gera þakkað henni fyrir alla aðstoðina. Hún sá um hárið mitt og heildarlúkkið á öllu. Hún var algjörlega yfir öllum skreytingum og náði að aðstoða mig fullkomlega í að gera salinn og þennan dag eins og ég sá hann fyrir mér.

Annars vil ég þakka ÖLLUM sem komu að þessum degi með okkur á einn eða annan hátt hjartanlega vel fyrir. Svona stór dagur krefst vinnu, skipulagningar og gott fólk í kringum ykkur.TAKK.
Það sem ég vil segja við öll verðandi brúðhjón er að njóta, njóta og njóta þar sem dagurinn er alltof fljótur að líða!

Það er örugglega fullt af spurningum og atriðum sem ég er ekki að svara eða fara vel í. Ef það er eitthvað þá er ég alltaf tilbúin að hjálpa. Sendið mér skilaboð á facebook eða í kommentum ;)

Góða skemmtun! Xx




2 comments:

  1. Hvar fékkstu þennan æðislega brúðarkjól? Með þeim fallegri sem ég hef séð.
    Kv. Íris

    ReplyDelete
  2. Kjólinn pantaði ég á netinu, þar sem boðið var uppá að láta sérsauma á mig. Það eru mjög margar síður á netinu sem eru farnar að bjóða uppá þá þjónustu :) Sendu mér mail á hafdish12@bifrost.is og ég skal reyna að finna linkinn ;)

    ReplyDelete