18 October 2013

Draumar

Á þriðjudaginn fór ég til Madrídar að horfa á Hörð spila sinn fyrsta leik hérna á spáni. Deildin hérna er talin vera sú sterkasta í evrópu og er Madríd með eitt besta liðið í deildinni. Valladolid eða liðið okkar er frekar neðarlega á listanum svo það var ekki endilega búist við jöfnum leik. Leikurinn endaði ekki okkur í hag og óþarfi að fara nánar útí það. Hörður stóð sig ótrúlega vel í þessum fyrsta leik og maður leiksins að mínu mati! Þetta er þriðji leikurinn sem liðið hans Harðar spilar saman svo það er kanski ekki hægt að dæma það hvernig þeir eru að spila núna.

Hörður hefur dreymt um að spila í þessari deild síðan hann var 9 ára! Það var því stór draumur sem varð að veruleika. Ég var örugglega spenntari en allt liðið til samans á leiðinni, það geta snap chat vinir mínir staðfest! Ég fékk gæsahúð við að koma inní höllina í Madríd. Bæði hvað hún er stór og sjá hvað Hörður er komin langt í átt að markmiðunum sínum. Hörður setti inn mjög flottan status þegar það var ljóst að við værum að koma hingað.

Hörður: Ég setti mér markmið fyrir 5 árum, að 5 árum seinna yrði ég að spila í ACB deildinni á Spáni, hér stend ég eftir endalausa vinnu og endalausar hindranir með samning í höndunum. Þú getur gert nákvæmlega það sem þú villt með þetta líf, fer allt eftir þínum eigin vilja og trú!

Endalaus vinna og endalausar hindranir að baki, en framundan er það sama. Því finnst mér ómetanlegt að hafa allt þetta frábæra fólk í kringum mig sem hefur stutt mig í gegnum allt til þess að þetta varð mögulegt og mun halda áfram að styðja mig svo framtíðardraumar mínir verði líka að veruleika. 

Það var fyrir akkurat 5 árum sem við fluttum frá spáni og heim til íslands. Ég sagði stuttu seinna við Hörð að þetta gæti verið það besta sem gat komið fyrir okkur að vera látin fara frá liði frá spáni og það heim til íslands. Það voru ekki margir sem trúðu því að eftir 5 ár væri hann kominn á þann stað sem hann er á í dag. Ég trúði því alltaf því ég sá á hverjum degi hvað hann lagði gríðarlega mikið á sig til að komast hingað. Það var allt gos og nammi tekið út og ótrúlegustu hlutir prófaðir til þess að komast lengra en deginum áður. Það hefðu örugglega margir hlegið ef hann hefði sagt þeim markmið sín fyrir fimm árum. Þetta sannar það að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi. Það að trúa nægilega mikið á það sem maður ætlar sér kemstu þangað sem þú vilt. Ég veit það fyrir víst að hann Hörður er með endalausa trú á sjálfan sig og það vantar ekkert uppá sjálfstraustið. 

Ég er ótrúlega heppin að fá að fylgjast með honum allan þennan tíma og fá að taka þátt í þessu ævintýri. Ég á aldrei eftir að geta lýst því hvað ég er stolt af honum. Hann leggur ekki bara endalausa vinnu á sig inná vellinum heldur gerir hann það líka hérna heima og hann sýnir mér það á hverjum degi. 

Draumar eru gerðir til þess að rætast.- Eyjólfur Gíslason.
 

2 comments:

  1. Yndislegt! Ég varð svo glöð fyrir ykkar hönd að lesa þetta. Gangi ykkur rosa vel !

    ReplyDelete