03 January 2013

2012

Það má sko segja að 2012 hafi verið árið okkar! Mér finnst alltaf gaman að fara yfir árið, hvað við gerðum saman, hverju við áorkuðum og hvert við ætlum að stefna á nýju ári. Áramót finnst mér alltaf frekar skemmtileg. Ég er ekkert að setja mér óraunhæf áramótaheit, heldur hvað mig langar að gera á nýju ári og svo næstu áramót hvað hefur ræst og hvað þarf að vinna betur í.
Í lok 2011 ákváðum við Hörður að við ætluðum að játast hvort öðru árið 2012. Því markmiði var náð, en þarf alltaf að vera að vinna að svo það er okkar eilífa markmið að halda hjónabandinu gæfuríku eins og það er í dag. 

Í janúar fékk ég vinnu hjá Hollister sem er amerísk keðja og mjög vinsæl. Ég held ég geti sagt að vinnan í Hollister hafi bjargað geðheilsu okkar beggja. Ég var að verða vitlaus á að vera hérna úti að gera ekki neitt. Ég lærði margt hjá Hollister og er núna t.d sérfræðingur í að brjóta eina flík saman á 10 mismunandi vegu, bjóða fólk velkomið á eins væmin hátt og hægt er ásamt mörgu öðru. Það eru um það bil 70 manns að vinna í einni búð hjá Hollister svo ég kynntist ótrúlega flottu fólki.

Ég setti mér það marmið fyrir árið 2012 og það var að ferðast meira. Við nýttum hvert tækifæri sem kom og hoppuðum í smá ferðalag. Við fórum nokkrar ferðir til Berlínar og ennþá fleiri til Leipzig. Við heimsóttum Björgvin Pál og Kareni til Magdeburg að horfa á leik með Björgvini. Á þessu fyrsta tímabili okkar fengum við heimsókn í hverjum einasta mánuði. Við erum svo ótrúlega heppin með fjölskyldur og vini sem komu til okkar. Eftir tímabilið fórum við svo í draumaferð til Grikklands. Tær sjór, strönd, hiti og frábær félagsskapur er allt sem þarf. Grikkland er hrein paradís!
Farið var svo í eina Boston ferð strax eftir brúðkaupið þar sem við hjónin svifum um á bleiku skýi! Sól, hiti, búðir og nýgift! Ég held það gerist ekki betra. Þegar við komum svo aftur til þýskalands hélt ferðalagið áfram, við heimsóttum Bamberg og Bayeruth á leiki hjá Herði og skelltum okkur svo yfir til Prag í eina nótt. Mig langar helst aftur þangað Prag er svo ótrúlega falleg. Við náðum ekki að skoða eins mikið og við vildum þar en fallegt var það sem við náðum að skoða. Núna á nýju ári eru nokkrir staðir sem eru planaðir í heimsókn og enn skemmtilegri plön fyrir sumarið í smíðum.


Hörður kláraði sitt fyrsta atvinnumannatímabil á þessu ári. Hann kláraði það heldur betur með stæl þar sem liðið vann deildina og fór því upp um deild. Hörður stóð sig mjög vel með liðinu og vildi liðið halda honum fyrir þetta tímabil. Öll vinnan sem Hörður hefur unnið undanfarin ár er að skila sér. Aukaæfingar, hollusta, fróðleikur og allt sem hann hefur komist yfir til þess að verða betri hefur hann nýtt sér og það sést vel á árangrinum. Hann er að fá tækifæri til þess að spila í virkilega sterkri deild og hefur unnið sér vel inn fyrir því. Ég er svo ótrúlega stolt af honum að fylgja svona vel á eftir sínum stærsta draumi. 

Við fluttum svo til íslands yfir sumarið. Betra sumar er ekki hægt að hugsa sér.. Þórhildur vinkona var nýbúin að eignast fallegann strák þegar við komum heim og fékk hann nafnið Esjar Kári. Helga systir útskrifaðist svo sem íþróttafræðingur í júní. Hjalti bróðir hans Harðar og Thelma kærastan hans eignuðust svo ótrúlega fallegan strák í júlí sem fékk nafnið Mikael Reynir.

Sumarið fór að mestu í að skipuleggja og halda brúðkaup en skemmtilegt var það. Ég get ekki lýst því hversu þakklát ég er vinum okkar og fjölskyldum. Það væri ekki hægt að gera þetta án ykkar. Pabba langar mig að þakka alveg sérstaklega vel ásamt Helgu systir. Pabbi var oft komin á undan mér og búin að redda hinu og þessu án þess að biðja hann um það. Hann hélt mér rólegri allan undirbúninginn en það var aðeins ein regla sem við vorum með og það var ekkert stress! Það voru margir hissa hversu vel það gekk og er ég ótrúlega ánægð að ná að halda því, þar sem þetta á að vera skemmtilegt og ánægjulegt ferli en ekki til að líta til baka og svekkja sig á að hafa verið of stressaður. Helga systir hjálpaði okkur óendanlega mikið. Hún sá að mestu um allar skreytingar og hjálpaði mér með nánast allt. Það var ekkert sem hún gat ekki hjálpað okkur með og var alltaf tilbúin að skoða og hjálpa okkur. Annars voru báðar fjölskyldurnar okkar boðnar og búnar að hjálpa okkur og ég held að ég nái aldrei að þakka almennilega vel fyrir okkur. Það er aðeins eitt orð sem kemst upp í hugan eftir svona fallegan dag og það er þakklæti.
Svo má ekki gleyma því að ég var gæsuð á ógleymanlegna hátt. Þessi dagur var svo ótrúlega skemmtilgur með stelpum sem mér þykir endalaust vænt um.

Ég ætla að fara betur í öll smáatriði á brúðkaupinu í sérstöku brúðkaupsbloggi sem ég er byrjuð á.

Við náðum þó að fara í ferðalag á Laugarvatn í sumar og eru ferðalög á íslandi klárlega á dagskránni þetta sumarið. Sumarið leið þó svo ótrúlega hratt en það er víst sagt að gerist þegar það er skemmtilegt og það var sumarið okkar svo sannarlega. Fjölskyldan, vinir, sund, skyndibiti, brúðkaup og endalaus gleði einkenndi sumarið okkar.

Hörður þurfti því miður að segja sig úr landsliðhópnum í sumar og fór því mun fyrr út aftur til þýskalands en planið var. Þannig stuttu eftir að við komum heim frá Boston þurfti Hörður að pakka í töskur til þýskalands. Ég kláraði að vinna út sumarið í innrituninni hjá Icelandair og flaug út til hans í lok ágúst ásamt Hjördísi systir. Við nutum sólarinnar saman í Berllín, Leipzig og Weissenfels.
Alvaran tók svo við þegar háskólinn byrjaði. Ég skráði mig fyrst í HHS sem er hagfræði, heimspeki og stjórnmálafræði en skipti svo yfir í vipskiptafræði. Sé ekki eftir því að hafa drifið mig áfram í námið. Ég náði öllum fögunum eða 100% námi hérna úti og það með topp einkunnir. Svo ég er bara svolítið stolt af sjálfri mér og stefnan sett á nýta tíman vel og klára á sama tíma og samnemendurnir heima.

Í október áttum við Hjónin 5 ára sambandsafmæli og 1 árs trúlofunarafmæli í byrjun nóvember. Því var fagnað með að fara rómantískt út að borða.
Við héldum svo jól og áramót saman hérna í þýskalandi. Þetta eru fyrstu jólin í okkar sambandi sem við eyðum saman. Ég hefði ekki getað beðið um betri hátíð nema auðvitað að hafa allt fólkið okkar með okkur. Við náðum að hitta þau á skype og njóta þess aðeins með þeim. Annars er alltaf hægt að gera gott úr hlutunum og sjá það besta í öllu. Þessi jól og áramót mun ég alltaf muna.
Hörður gaf mér fallegustu gjöf sem ég hefði getað óskað mér. Eins og ég lýsti hér að neðan þá var þetta rauður skór eins og usb lykill með myndbandi frá brúðkaupinu okkar. Svona gjafir finnst mér skemmtilegast að fá. Eitthvað sem virkilega var gert frá hjartanu.

Hérna eru nokkrar myndir frá árinu okkar.
















































Njótið nýja ársins elsku vinir. Þetta ár ætla ég að reyna ná markmiðum mínum og halda áfram að elta drauma mína.  Þessa fallegu mynd hér að ofan fann ég um daginn og segir allt sem segja þar. Njótum dagsins í dag hann kemur ekki aftur. Eltum draumana okkar áður en það verður of seint. Með þennan eiginmann mér við hlið þarf ég ekki að hafa áhyggjur af framtíðinni, heldur ætla ég að gera allt til þess að njóta hennar.

Xx Hafdís


3 comments:

  1. Vá hvað brúðkaupsmyndirnar ykkar eru fallegar, þú ert einstaklega falleg brúður :)

    Gaman að fá að fylgjast með þér þó ég þekki þig ekkert!

    Bestu kveðjur
    Sólveig Björg

    ReplyDelete
    Replies
    1. Takk fyrir hrósið og kommentið ;)
      Gaman að vita að einhver hefur gaman af skrifunum og myndunum! :)

      kv
      Hafdís

      Delete
  2. Ohhh brúðarkjóllinn þinn er ÆÐIIIII!!!
    Hvaðan er hann? Af forvitni:)

    Takk fyrir skemmtilegt blogg

    ReplyDelete